MUGISON - Gúanó stelpan - Video
PUBLISHED:  May 18, 2012
DESCRIPTION:
Mugison spilar á tveimur útihátíðum í sumar en ætlar annars að taka því rólega fyrir vestan. Dytta að húsinu og vera með börnunum sínum. Velgengni hans í fyrra var mögnuð en hann segir að þetta hafa verið skemmtilegt tímabil þó hann sakni þess að hafa misst af því þegar tennur duttu úr börnunum.

Mugison kom í Morgunútvarpið og talaði um síðustu mánuði sem hafa verið ansi viðburðarríkir. Plata hans Haglél sló rækilega í gegn, hann hélt tónleika um allt land fyrir troðfullum húsum og bauð svo til tónlistarveislu í Hörpu. Hann var maður ársins að mati hlustenda Rásar tvö sem sögðu að á árinu 2011 hefði hann stuðlað að samstöðu og samkennd meðal fólks. Þá sögðust hlustendur hafa hrifist af því að hann skyldi halda tónleika fyrir alla landsmenn og þannig sýnt þakklæti í verki. Þá var hann á tímabili hvattur til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Morgunútvarpið fór yfir alla velgengnina með Mugison í morgun. Hann segir að þetta hafi verið ótrúlegt tímabil og bara skemmtilegt. Hann og aðrir í hljómsveitinni hafi óttast að tónleikaferðin um landið sem tók tvo mánuði yrði erfið og jafnvel leiðinleg. Ferðin reyndist hins vegar bara skemmtileg og þeim leið eins og þau væru stödd í gleðilest. Hann segist mjög þakklátur. Auðvitað hafi þetta tímabil verið erfitt. Síminn stoppaði ekki enda segir hann að varla hafi verið til sá vinnustaður á Íslandi sem ekki vildi fá hann til að syngja og sprella á kaffistofunni. Svo voru það fertugs-,fimmtugs- og sextugsafmælin. Brúðkaupin og jarðarfarirnar. Hann segist hafa verið orðinn mjög ringlaður og sé það stundum ennþá. Þó hann sé búinn að vinna í því í áratug að lenda í þessari aðstöðu kom álagið á óvart. Hann segir að stundum hafi hann hugsað; Getið þið látið aðeins í friði þannig að ég geti fengið mér kaffi og sígó. Þá hafi konan hans þurft að sinna heimilinu frá a-ö og hann hafi misst af ýmsu. Til dæmis þegar barnatennur duttu. Fyrst og fremst hafi þetta þó verið ævintýralega skemmtilegur tími. Hann hefur líka fengið allskyns tilboð. Fyrirtæki vildi t.d. kaupa lagið Stingum af og nota í auglýsingu. Mugison fannst það ekki við hæfi. Hann segir að margir eigi ljúfar minningar við lagið og hann leit svo á að það væri svik við fólk ef það yrði auglýsingalag. Tilboðið var samt djöfulli gott segir Mugison. Hann segist líka hafa upplifað 2007 stemningu. Fólk sem á sand af seðlum hafi verið með allskyns hugmyndir um að nota hann og tónlist hans en að því hafi líklega bara langað að græða meiri peninga. Samt finnst honum fallegt að fólk hugsi til sín. Sumarið verður rólegt hjá Mugison. Hann ætlar að vera fyrir vestan og semja tónlist, dytta að húsinu sínu og leika við börnin sín.
follow us on Twitter      Contact      Privacy Policy      Terms of Service
Copyright © BANDMINE // All Right Reserved
Return to top