Poetrix

Location:
Smoketown, IS
Type:
Artist / Band / Musician
Genre:
Hip Hop
Created with mySpace Profile Editor



Þarf grár og hættulegur heimur–fullur af mannvonsku–ofurhetju til að bjarga sér? Eða þarf ofurhetjan hættulegan heim til þess að bjarga sér frá meðalmennskunni?



Þriggja ára gamall gekk Poetrix um íklæddur skikkju, með lögguhúfu á höfðinu og rændi sælgæti úr hillum verslana ( Einhver þurfti að bjarga því frá ömurlegum örlögum rotnunar) ásamt því að fylla klósettin heima hjá sér af grjóti ef að enginn upplifði sig í bráðri þörf fyrir hetju einhversstaðar. Já sjálfsmyndarvandamálin byrjuðu snemma og núna, tuttugu og einu ári seinna er hann ennþá á leiðinni að fara að bjarga heiminum, en er of veikur fyrir konunum sem hann hittir í millitíðinni. Fastur á milli sjálfsvorkunnar og hetjudrauma og í leit að hverju því sem getur látið lífið hætt að vera svarthvítt hefur hann tekið þann pól í hæðina að láta eins og það sé sjónhverfing. Helstu áhugamálin hans eru að bíða eftir því að tilveran bjóði honum uppá kjöltudans, vekja borgarbúa frá værum blundi með því að spila tónlist sem þau skilja ekki hærra en lögreglusamþykktir leyfa, kalla partíljón til ábyrgðar fyrir hlutverkum sínum, gera geðlækna geðveika og heimta athygli. Kallar fólk snillinga ef það talar á dramatískan máta og dýrkar fagrar gengilbeinur sem halda að þær geti heftað brotna vængi.



Upprunalega einsetti Poetrix sér að verða uppljómaður – stórkostlegasta útgáfan af sjálfum sér sem hann gæti orðið. Sannur leiðtogi sem myndi leiða mannkynið áfram til betra lífs með góðu fordæmi en fór að gruna að það væru smávægilegir gallar við þá áætlun þegar hann gat ekki hætt að reykja eða vaknað fyrir hádegi nema þegar hann vaknaði á næturnar til að reykja. Hann er líka haldinn þeirri furðulegu áráttu að verða að segja allt sem að hvarflar að honum að sé óviðeigandi eða alls ekki svo sniðugt að segja. Ekki mjög hentugt þegar þú ert að reyna að markaðssetja þig sem andlegan risa. Planið gaf endanlega upp öndina þegar að hugleiðslumeistara Poetrix á Indlandi var rænt af mönnum sem eru jakkafataklæddir á sumrin og ganga með sólgleraugu innanhús. Poetrix sannfærðist um að þetta væri útsmogið ráðabrugg til þess að svipta hann innblæstrinum að hiphop plötunni sem gæti bjargað deginum, og fylltist í kjölfarið miklu hatri. Reiði hans (og fátæklegur hugmyndabanki) olli því að hann ákvað að hefna sín með því að gera hiphop tónlist sem að allir sem ganga í jakkafötum á sumrin og með sólgleraugu inni ættu eftir að hata.



Síðan þá hefur lítið spurst til Poetrix en sögurnar segja ýmist að hann sé með stórkostlega hiphop plötu á leiðinni, að hann sé orðinn hórumangari, ástsjúkur, prédikari, heimspekingur eða dópisti. Og sumir segja að hann sé svo stanslaust rifinn og tættur á milli þess góða í sjálfum sér og slæma að hann sé orðinn eins og strengjabrúðan sem veit ekki hvort strengirnir hennar séu fjötrar sem hindra hana frá því að springa út og vera frjáls eða það eina sem að glæðir hana lífi–drífur hana áfram. Háværustu sögurnar segja að hann haldi því fram að hann hafi fengið fimm ofurhetjur sem voru búnar að leggjast í helgan stein til þess að taka fram skikkjuna í eitt skipti í viðbót til að hjálpa honum að ná markmiði sínu.



Bassi sem lætur aumingja virka harða og málninguna á veggjunum flagna, bassatromma sem sparkar þér útá götu og snerill í kjölfarið eins og vörubíll að klessa á andlitið á þér. Nógu mikið reggí til að dreddar vaxa á sköllótt fólk, grúv sem getur látið þig kinka taktfast kolli í svefni þangað til í næsta lífi og nógu mikið partí til þess að börnin þín munu erfa þynnkuna.



Hvert er svarið? Við þurfum öll að láta bjarga okkur. Frá reikningum, stofnunum tengdaforeldrum, ástríðulausum samböndum, tiltekt, bílastæðaleysi, fortíðinni, andvökunóttum, pólitík, skriffinnsku, námsefni, áhyggjum, tilgangsleysi og þriðjudagum á milli tólf og þrjú. Sum okkar þurfa að láta bjarga sér frá meðalmennsku og önnur þurfa bara einhvern til að setja á stall, einhvern til að vera hetja svo þau geti gleymt eigin skort á kjarki. Sumir þurfa einfaldlega að trúa því að þeir séu sú hetja eða geti orðið hún til að hafa eitthvað til að stefna að.



Þó svo að einu ofurkraftar Poetrix séu faldir í því rappa, síbilandi óbilandi sjálfstraust og geta sannfært þig um að hann sé of svalur til að mæta í skólann þá hefur hann það sem þarf. Vopnaður míkrafón, yfirlýsingagleði, ósamkvæmni, kaldhæðni, ástríðu, sjálfsmynd teiknaða af einhverjum sem ætti ekki að vera lita þegar hann er fullur, glotti sem segir “mér er skítsama”, ótrúlegri færni í að klúðra lífi sínu og brjálæðislegu óþoli fyrir öllu sem gæti flokkast sem venjulegt er hann stöðugt í leit að því næsta sem lætur hann halda að hann sé lifandi, næsta ævintýri, næstu mistökum, næsta partíi. Reiðubúinn með rímuna sem hann trúir að geti látið þig halda að eitthvað sé að fara breytast. Hverjum er ekki sama um ofurhetjur sem geta flogið? Vertu viðbúinn því, hvort sem þér finnst þörf á því eða ekki, að vera bjargað frá því eina sem þessum bjargvætti finnst nauðsynlegt að bjarga heiminum frá-hversdagsleikanum.
0.01 follow us on Twitter      Contact      Privacy Policy      Terms of Service
Copyright © BANDMINE // All Right Reserved
Return to top